Enski boltinn

Mourinho tilbúinn til viðræðna við enska knattspyrnusambandið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Jose Mourinho sagði í samtali við The Sun að hann hefði áhuga á að ræða við enska knattspyrnusambandið um stöðu landsliðsþjálfara.

„Þú verður að ræða við enska knattspyrnusambandið til að athuga hvort það hafi áhuga á að bjóða mér starfið," sagði Mourinho sem hætti sem knattspyrnustjóri Chelsea í september síðastliðnum.

„Sjálfur get ég ekki sagt hvað mér finnst fyrr en forráðamenn sambandsins segja að þeir hafi áhuga. Segðu knattspyrnusambandinu að ná í mig. Við verðum að bíða og sjá en ég útiloka ekki neitt."

Mourinho hefur ekki fundið sér nýtt starf síðan hann hætti hjá Chelsea en ljóst er að almenningur í Englandi hefði mikinn áhuga á að fá hann í starf landsliðsþjálfara.

Á ferli sínum hefur hann unnið tvo meistaratitla í Portúgal, tvo í Englandi, ensku deildabikarkeppnina tvívegis og ensku bikarkeppnina einu sinni. Þá hefur hann einnig unnið Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarinn sem knattspyrnustjóri Porto.

Hann hefur áður látið hafa eftir sér að hann hefði aðeins áhuga á að taka að sér landsliðsþjálfarastarf í heimalandi sínu, Portúgal.

Brian Barwick, formaður enska knattspyrnusambandsins, hefur sagt að þjóðerni næsta landsliðsþjálfara skipti engu máli. Hann og Trevor Brooking munu fara fyrir ráðningu næsta landsliðsþjálfara Englands.

Steve McClaren var rekinn úr starfi landsliðsþjálfara fyrir skömmu eftir að honum mistókst að stýra enska landsliðinu í úrslitakeppni EM 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×