Enski boltinn

Mendieta segir McClaren hæfileikalausan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gaizka Mendieta, leikmaður Middlesbrough.
Gaizka Mendieta, leikmaður Middlesbrough. Nordic Photos / Getty Images

Gaizka Mendieta, leikmaður Middlesbrough, segir að Steve McClaren hafi enga hæfileika sem knattspyrnuþjálfari og að sá grunur hans hafi nú verið staðfestur.

Undir stjórn McClaren mistókst enska landsliðinu að vinna sér sæti í úrslitakeppni EM á næsta ári. Hann var áður aðstoðarmaður Sven-Göran Eriksson hjá landsliðinu og um leið knattspyrnustjóri Middlesbrough.

McClaren var á dögunum rekinn úr starfi hjá enska knattspyrnusambandinu.

„Ég veit ekki hvað þeir sáu í McClaren þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari," sagði Mendieta við El Pais. „Ég gerði mér grein fyrir þessu þegar hann var hjá Middlesbrough og það hefur nú fengist staðfest. Það kom mér mjög á óvart þegar hann var ráðinn landsliðsþjálfari. Hvaða hæfileikum telja þeir að hann búi yfir?"

Mendieta hefur ekki spilað með Middlesbrough lengi og fær varla leik með varaliðinu. Hann er þó enn á mála hjá félaginu og æfir enn með aðalliðinu.

Hann var valinn besti miðvallarleikmaður Meistaradeildar Evrópu tvö ár í röð, 2000 og 2001, er hann lék með Valencia.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×