Enski boltinn

Owen: Pressan fór með okkur

NordicPhotos/GettyImages

Michael Owen segir að enska landsliðið hafi setið eftir á EM af því það hafi einfaldlega ekki staðist pressuna.

Owen missti af leiknum örlagaríka við Króata vegna meiðsla, en hann hefur fastmótaðar skoðanir á því hvað fór úrskeiðis.

"Það er alltaf sami hluturinn sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um þetta - ótti. Við stóðumst ekki pressuna," sagði Owen í samtali við News of the World í dag.

"Stuðningsmenn enska landsliðsins gera gríðarlegar kröfur á liðið og hafa auðvitað fullan rétt á því, en það sem mestu máli skiptir er hvernig leikmennirnir bregðast við þessari pressu. Við töpuðum stigum í leikjum sem við hefðum átt að vinna og því er þetta okkur sjáfum að kenna - við hefðum ekki þurft að setja svona mikla pressu á okkur sjálfa," sagði Owen.

"Það eru til íþróttamenn sem þrífast undir pressu, menn eins og Tiger Woods, en þegar menn láta taugarnar hafa áhrif á sig hefur það áhrif á allan leik þeirra. Þeir fara að gera mistök og reyna að leysa hlutina á einfaldan hátt eins og að dæla boltanum bara fram í stað þess að spila honum. Ég er ekki að útiloka sjálfan mig frá þessari gagnrýni þó ég hafi ekki spilað leikinn gegn Króatíu, en það sem við þurfum að líta á er undirbúningur liðsins á sálfræðisviðinu," sagði landsliðsframherjinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×