Erlent

Útlit fyrir átök í Líbanon

Útlit er fyrir hörð átök í Líbanon á næstu dögum. Emil Lahoud, forseti landsins, lét af embætti í gærkvöldi og enginn skipaður í hans stað. Stríðandi fylkingum á þingi tókst ekki að velja nýjan forseta og hvetur Lahoud herinn til að grípa til sinna ráða.

Þar með hefur Lahoud, bandamaður Sýrlendinga, í raun lýst yfir neyðarástandi í landinu. Hann hvatti her landsins til að taka völdin. Óttast margir að tvær stríðandi fylkingar í landinu eigi ekki eftir að sættast á eftirmann og þá verði önnur ríkisstjórn skipuð til höfuðs þeirr sem nú ræður og nýtur stuðnings vesturveldanna. Önnur fylkingin á þingi styður Sýrlendinga að málum en er í minnihluta. Hinn hópurinn er andvígur afskiptum ráðamanna í Damaskus af innaríkismálum Líbana. Sýrlendingar kölluðu herlið sitt heim frá Líbanon 2005 og lauk þar nær þrjátíu ára yfirráðum þeirra. Andstæðingar Sýrlendinga náðu meirihluta á þingi sama ár en Lahoud hélt samt í embættið. Ekki tókst að þvinga hann til afsagnar.

Nú er landið á forseta í annað sinn síðan 1943 þegar Líbanon fékk sjálfstæði frá Frökkum. Síðast gerðist það 1988 en þá geisaði blóðug borgarastyrjöld í landinu sem hafði staðið frá 1975 og lauk ekki fyrr en 1990. Þinginu tókst þá ekki heldur að velja forseta og blossuðu þá upp hörð átök - einhver þau mannskæðustu á tímabilinu.

Óttast margir að til átaka komi aftur nú. Lahoud var harorður í garð vesturveldanna þegar hann fór úr forsetahöllinni í gærkvöldi. Hann sakaði Bandaríkjamenn og Frakka um afskipti af innanríkismálum Líbana. Á sama tíma sagði ráðherra í ríkisstjórninni brothvarf hans gleðiefni. Sýrlendingar hefðu þvingað þennan forseta upp á líbönsku þjóðina og nú væri hann hættur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×