Íslenski boltinn

Ólafur: Jóhannes með sýkingu í lungum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari.
Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari. Mynd/E. Stefán

Ólafur Jóhannesson segir að Jóhannes Karl Guðjónsson sé með sýkingu í lungum og hafi af þeim sökum þurft að draga sig úr landsliðshópnum sem mætir Dönum í næstu viku.

„Hann er bara með flensu,“ sagði Ólafur við Vísi. „Hann hringdi í mig í morgun og eftir að hafa kannað málið betur og rætt við lækni landsliðsins varð niðurstaðan sú að hann kæmi ekki með til Danmerkur.“

Ólafur segir að hann sé nú kominn á sýklalyf og gæti verið búinn að jafna sig í upphafi næstu viku. „Ég ákvað samt að það væri best ef hann kæmi ekki með að þessu sinni.“

Eiður Smári Guðjohnsen dró sig úr landsliðshópnum í gær af persónulegum ástæðum. Ólafur hefur þó ekki áhyggjur af gangi mála og segir ekkert meira búa að baki fjarveru Jóhannesar Karls.

„Ég er búinn að vera í góðu sambandi við hann og þetta er bara eitthvað sem kom upp á. Menn eru svo sem fljótir að leggja saman tvo og tvo en það er ekkert óvenjulegt við þetta.“ 

Ólafur valdi Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, leikmann FH, í hópinn í stað Jóhannesar Karls. „Ég var ekkert smeykur við að velja hann þó svo að hann hafi ekkert spilað síðustu vikurnar. Ég þekki hann vel og hann hefur haldið sér í góðu formi.“

Hann segir að vissulega hafi þetta sín áhrif á liðið en Ólafur segist engar áhyggjur hafa. „Maður getur alltaf átt von á því að svona komi upp á og þetta mun ekki gjaldfella leikinn fyrir mig.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×