Íslenski boltinn

Ísland verður í fimmta styrkleikaflokki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson og Ólafur Jóhannesson verða viðstaddir dráttinn í Suður-Afríku.
Geir Þorsteinsson og Ólafur Jóhannesson verða viðstaddir dráttinn í Suður-Afríku. Mynd/E. Stefán

Ísland hefur fallið úr því að vera í fjórða neðsta styrkleikaflokki í undankeppni stórmóts í þann næstneðsta. Dregið verður síðar í mánuðinum í riðla í undankeppni HM 2010.

Fram kom í máli Geirs Þorsteinssonar, formanni KSÍ, á blaðamannafundi sambandsins í dag að hann og Ólafur Jóhannesson muni verða viðstaddir dráttinn í Suður-Afríku þann 25. nóvember næstkomandi.

Síðast þegar dregið var í riðla í undankeppni stórmóts var Ísland í fjórða styrkleikaflokki af sjö. Nú er Ísland hins vegar í fimmta styrkleikaflokki af sex.

Í undankeppni HM 2010 í Evrópu verða samtals níu riðlar. Þar af eru átta sem innihalda sex lið og einn sem inniheldur fimm lið.

Í undankeppni EM 2008 eru sjö riðlar í Evrópu og í riðli Íslands eru sjö lið. Það er því viðbúið að keppnisleikjum muni fækka á næstu tveimur árum.

Nú í fyrsta skipti verður stuðst við styrkleikalista FIFA í niðurröðun liða í styrkleikaflokka. Til þessa hefur Knattspyrnusamband Evrópu stuðst við árangur í síðustu tveimur undankeppnum á undan við niðurröðun í styrkleikaflokka.

Ísland situr í 79.-80. sæti á listanum en þar áður var liðið í 107. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×