Enski boltinn

Vilja fleiri varamenn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson.

Manchester United og Tottenham vilja að fleiri varamenn verði heimilaðir í ensku úrvalsdeildinni. Í dag er gefið leyfi fyrir fimm leikmönnum á varamannabekknum en fyrrnefnd félög vilja að þeim verði fjölgað í sjö.

Í Meistaradeild Evrópu og í landsleikjum er sá háttur hafður á að leyfi er fyrir sjö menn á bekknum og þrír af þeim mega koma inn á. Sama á við um nokkrar deildir í Evrópu, þar á meðal Landsbankadeildina hér á Íslandi.

„Öll félög eru með leikmannahópa með fleiri en sextán leikmönnum," segir Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United. „Til dæmis gat ég ekki valið Darren Fletcher í hópinn fyrir leikinn gegn Arsenal. Það var erfitt fyrir hann og mig líka."

Sven-Göran Eriksson, stjóri Manchester City, er einnig baráttumaður fyrir því að fjölgað verði á varamannabekkjum ensku úrvalsdeildarinnar.

Talsmaður enska knattspyrnusambandsins segir að málið verði skoðað. Til að nýjar reglur taki gildi þurfa 14 af 20 liðum ensku úrvalsdeildarinnar að kjósa með þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×