Innlent

Ringo Starr kemur á morgun

Ringo Starr og Olivia Harrison koma til landsins á morgun til að vera viðstödd tendrun friðarsúlunnar. Þau munu þó stoppa stutt hér á landi og fara heim að athöfn lokinni. Enn er ekki útilokað að Paul McCartney sjái sér fært að mæta.

Yoko Ono og Sean, sonur hennar og Johns Lennon eru komin til landsins og er undirbúningur að tendrun súlunnar í fullum gangi. Kveikt verður á friðarsúlunni klukkan 19.25 annað kvöld og verður sýnt beint frá athöfninni á Stöð 2. Súlan, sem tendruð er til minningar um John Lennon, mun síðan lýsa upp himininn fram til 8. desember en þann dag lést John Lennon árið 1980.

Trymbillinn Ringo Starr er einn þeirra sem mun vera viðstaddur tendrunina annað kvöld. Hann kemur til landsins á morgun og mun stoppa stutt við og fara heim fljótlega eftir að athöfninni er lokið. Þá hefur ekkja George Harrison, Olivia, boðað komu sína og mun hún einnig koma til landsins á morgun.

Ekki er enn hægt að útiloka að Paul McCartney láti sjá sig en hann er einn þeirra fjölmörgu sem boðið var í athöfnina. Fjölmargir erlendir fjölmiðlar hafa sýnt athöfninni áhuga og sýnt verður frá henni víða um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×