Íslenski boltinn

20-30 félög á eftir Birni Bergmanni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björn Bergmann Sigurðarson er hér í baráttu við Barry Smith, leikmann Vals. Þarna er aldursmunurinn sautján ár, en Björn er sextán ára gamall.
Björn Bergmann Sigurðarson er hér í baráttu við Barry Smith, leikmann Vals. Þarna er aldursmunurinn sautján ár, en Björn er sextán ára gamall. Fréttablaðið/Vilhelm

Bjarni Guðjónsson, bróðir Björns Bergmanns Siguðarsonar, segir að 20-30 erlend félög hafi sýnt bróður sínum áhuga.

Báðir eru þeir leikmenn ÍA en sá síðarnefndi skoraði bæði mörk ÍA í 2-2 jafnteflisleik við Val í Landsbankadeild karla í gær. Björn Bergmann er fæddur árið 1991 og er því ekki nema 16 ára gamall.

"Ef hann vildi gæti hann farið til reynslu hjá 20-30 liðum," sagði Bjarni. "Það er fylgst mjög vel með honum enda bæði stór og sterkur þó hann sé ekki nema 16 ára gamall."

Björn Bergmann kemur úr mikilli fótboltafjölskyldu en hálfbræður hans eru auk Bjarna þeir Þórður og Jóhannes Karl Guðjónssynir. Faðir þeirra þriggja síðastnefndu er Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA.

"Það er sameiginleg niðurstaða í fjölskylduráðinu að hann hefur ekkert með það að gera að æfa með unglingaliði einhvers félags í Evrópu. Þar eru oft 30 strákar samankomnir og samkeppnin er mikil. Félögin eru oft sátt við ef einn ungur leikmaður kemur upp í aðalliðið á hverju ári."

Björn Bergmann er hér til hægri með liðsfélaga sínum Ragnari Leóssyni en þeir voru duglegir að raða inn mörkunum á Esso-mótinu sumarið 2003. Ragnar hefur líka spilað með meistaraflokki ÍA í sumar.Mynd/Ægir Dagsson

"Á Akranesi er hann með toppþjálfara og æfir við mjög góðar aðstæður," bætti Bjarni við. Sjálfur segir Björn Bergmann að hann ætli að spila hér á Íslandi næsta sumar en reyna svo að komast út.

Bjarni segir að það væri annað mál ef eitthvað félag væri tilbúið að bjóða Birni atvinnumannasamning þar sem hann fengi að æfa og spila með aðalliði félagsins. "Þá væri hann að æfa með betri leikmönnum og við betri aðstæður. Það væri erfitt að neita því. En til þess að það sé mögulegt vilja félögin fá hann fyrst til reynslu, skiljanlega. Eins og málin hafa staðið í sumar hefur einfaldlega ekki gefist svigrúm til þess."

Bjarni segir því afar líklegt að Björn nýti sér tímann í vetur til að kanna aðstæður hjá einhverjum félaganna sem hafa sýnt honum áhuga. Bjarni staðfestir að félögin sem umræðir komi ýmist frá Englandi, Norðurlöndunum eða meginlandi Evrópu.

En skyldi Björn Bergmann vera betri en þeir bræður voru á hans aldri?

"Hann hefur margt sem við höfðum ekki," sagði Bjarni. "Til dæmis hæðina og mikinn styrk. Það vantar eitthvað annað á móti en það er ljóst að hann hefur alla burði til að verða betri en við allir. En það er mikill munur á því að vera ungur og efnilegur og svo góður leikmaður. Hann er þó á réttri leið."

Sjá einnig: Björn Bergmann: Aldurinn skiptir ekki máli




Fleiri fréttir

Sjá meira


×