Íslenski boltinn

Willum: Guðjón tók dómarann úr jafnvægi

Elvar Geir Magnússon skrifar
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.

Willum Þór Þórsson var að vonum ekki sáttur eftir leikinn gegn ÍA enda var Valsliðið að misnota enn eitt tækifærið til að komast á toppinn. Hann segir að þjálfari Skagamanna, Guðjón Þórðarson, hafi tekið dómarann úr jafnvægi í leiknum.

„Við sem erum að temja okkur prúðmennsku í þessum leik horfum upp á Guðjón Þórðarson hrauna yfir Kristinn Jakobsson dómara. Guðjón tók hann gjörsamlega úr jafnvægi í fyrri hálfleik. Það var ekkert tekið á því og eftir þetta var Kristinn ekki í jafnvægi að dæma þennan leik," sagði Willum við Vísi eftir leik.

„Bjarni Guðjónsson fékk bara algjörlega það sem hann vildi inni á vellinum. Ég er ósáttur við að þjálfari þeirra komist upp með að hrauna yfir dómarann."

Honum fanns leikurinn þó heilt yfir ágætur. „Skagaliðið er gott og vel skipulagt. Þeir eru hættulegir í skyndisóknum. Við vorum búnir að undirbúa okkur undir það. Við vorum ekki á vaktinni þegar þeir jafna, þeir komu hratt á okkur. Við gerðum mistök þar og það var óþarfi að fá hitt markið síðan í kjölfarið. Þessi kafli var slæmur en að öðru leyti spiluðum við vel."

Í næstu umferð leika Valsmenn sannkallaðan risaleik við FH. Sá leikur gæti ráðið úrslitum í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. „Mér lýst frábærlega á það. Það verður bara úrslitaleikur," sagði Willum að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×