Íslenski boltinn

Hitað upp fyrir stórslag Vals og ÍA

Guðjón Heiðar Sveinsson Skagamaður og Sigurbjörn Örn Hreiðarsson eigast við í fyrri leik liðanna upp á Skaga.
Guðjón Heiðar Sveinsson Skagamaður og Sigurbjörn Örn Hreiðarsson eigast við í fyrri leik liðanna upp á Skaga. Mynd/Gísli Baldur

Valur og ÍA eigast við á Laugardalsvellinum í kvöld í lokaleik 16. umferðar Landsbankadeildar karla. Með sigri kemst Valur á topp deildarinnar þar sem FH tapaði í gær fyrir Breiðabliki. Fyrirliðar liðanna voru spenntir fyrir leiknum.

"Þetta verður hörkuslagur, eins og alltaf gegn Skaganum," sagði Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði Vals. "Annars skiptir svo sem ekki máli hver andstæðingurinn er í kvöld, aðamálið er að við einbeitum okkur að okkur sjálfum."

Valur hefur í tvígang mistekist í sumar að hirða toppsætið af FH-ingum.

"Þegar FH hefur misstigið sig höfum við passað okkur á því að gera slíkt hið sama. En nú er komið að því að hirða toppsætið."

Guðjón Þórðarson, þjálfari ÍA, hefur stillt upp varnarsinnuðu liði í sumar sem beitir þó stórhættulegum skyndisóknum. Það hefur borið góðan árangur.

"Það er alltaf erfitt að spila gegn liði sem spilar þannig bolta," sagði Atli Sveinn. "Það mun væntanlega því koma í okkar hlut að halda boltanum í kvöld. Við erum fyllilega tilbúnir í það verkefni."

Bjarni Guðjónsson, fyrirliði ÍA, var spenntur fyrir leiknum. "Þessi leikur er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Þeir hafa að miklu að keppa og við líka. Ef við vinnum náum við þriggja stiga forskoti á Fylki og erum aðeins þremur stigum frá Val. Þeir eiga svo eftir að spila við FH."

Hann segir að það muni reyndar koma sér illa fyrir sína menn að þrjá sterka leikmenn vanti í lið ÍA. Þetta eru Þórður Guðjónsson, Ellert Jón Björnsson og Helgi Pétur Magnússon en sá síðastnefndi tekur út leikbann í kvöld.

"Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að við erum ekki með það breiðan hóp að við megum við miklum skakkaföllum. Það skiptir kannski minna máli fyrir lið eins og Val sem er með marga leikmenn á sínum snærum."

Hann segir leikstíl Skagaliðsins lítið leyndarmál. "Það vita allir hvernig við spilum. Við verjumst vel og sækjum hratt. Það hefur reynst okkur vel. Við höfum unnið mikið af leikjum í sumar. Í fyrra spiluðum við mjög skemmtilegan bolta sem bar þó sjaldan árangur."

Hann segir það vera alveg ljóst hvort tímabilið hafi verið skemmtilegra. "Það er alltaf mun skemmtilegra að vinna leiki, það er ekki spurning." 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×