Íslenski boltinn

Íslandsmeistararnir lágu á Kópavogsvelli

Breiðablik setti toppbaráttuna í Landsbankadeild karla upp í loft í dag þegar liðið vann 4-3 sigur á FH í æsilegum leik á Kópavogsvelli. Heimamenn komust í 4-1 í leiknum en Íslandsmeistararnir gáfust ekki upp og skoruðu tvö síðustu mörkin.

Nenad Zivanovic kom Blikum yfir eftir 12 mínútna leik. Auðun Helgason jafnaði metin fyrir FH-inga, en Prince Rajcomar skaut Blikum yfir aftur nánast á sömu mínútu. Þannig stóðu leikar í hálfleik og eftir aðeins sjö mínútna leik í þeim síðari kom Magnús Páll Gunnarsson Blikum í 3-1. Auðun Helgason varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar 25 mínútur voru eftir af leiknum, en Íslandsmeistararnir voru þó hvergi nærri búnir að gefast upp.

Arnar Gunnlaugsson og Matthías Guðmundsson skoruðu með 8 mínútna millibili og minnkuðu muninn í eitt mark, en lengra komust FH-ingar ekki að þessu sinni. Nú munar því aðeins þremur stigum á FH og Val í toppbaráttunni og Valsmenn eiga leik til góða gegn Skagamönnum á morgun.

Fylkir og Fram skildu jöfn 1-1 í Árbænum þar sem gestirnir komust yfir með 11. marki Jónasar Grana Garðarssonar á 42. mínútu, en Daninn magnaði Christian Christianssen jafnaði metin í blálokin.

Loks skildu Keflavík og Víkingur jöfn í Keflavík 0-0 þar sem Guðmundur Viðar Mete fékk að líta rautt spjald í fyrri hálfleik í liði heimamanna.

16. umferðinni í Landsbankadeildinni lýkur annað kvöld með leik Vals og ÍA og þar geta Valsmenn velt FH-ingum af toppi deildarinnar í fyrsta sinn í háa herrans tíð.

Stöðuna í deildinni má sjá hér til hægri






Fleiri fréttir

Sjá meira


×