Fótbolti

Joaquin: Við fáum ekkert nammi á Íslandi

Joaquin er hér ásamt félögum sínum  Cesc Fabregas og Fernando Torres í spænska landsliðinu
Joaquin er hér ásamt félögum sínum Cesc Fabregas og Fernando Torres í spænska landsliðinu NordicPhotos/GettyImages

Spænski miðjumaðurinn Joaquin hjá Valencia segir að félagar hans í spænska landsliðinu eigi ekki von á blíðum móttökum þegar þeir sækja Íslendinga heim í undankeppni EM á laugardaginn. Hann segir Spánverja vita betur en að vanmeta íslenska liðið.

"Við höfum áhyggjur af íslenska liðinu og vitum að þeir koma ekki til með að bjóða okkur nammi þegar við mætum þangað - það sáum við í síðasta leik okkar við þá. Við verðum að mæta þangað með allar stóru byssurnar okkar og það er mikið í húfi. Við verðum að einbeita okkur að því að spila okkar leik og ná í öll stigin," sagði Joaquin.

Spænska liðið lagði það íslenska 1-0 með marki Andres Iniesta þegar liðin mættust í mars og þarf nauðsynlega á öllum stigunum að halda á Laugardalsvelli til að eiga von um að vinna jafnan riðilinn.

"Þetta verður erfiður útileikur fyrir okkur, en það kemur ekkert annað en sigur til greina því við megum ekki gera mistök héðan af í riðlinum," sagði Joan Capdevila, bakvörður spænska liðsins.

Spánverjar eru þremur stigum frá toppliði Svía í riðlinum og einu stigi á eftir Norður-Írum sem eru í öðru sæti riðilsins. Spánverjar leika við Íslendinga á Laugardalsvellinum á laugardaginn og mæta svo botnliði Liechtenstein í Oviedo á miðvikudeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×