Fótbolti

Stjörnurnar æfðu ekki með enska landsliðinu

Steven Gerrard æfði ekki með félögum sínum í morgun
Steven Gerrard æfði ekki með félögum sínum í morgun NordicPhotos/GettyImages

Steven Gerrard var einn þeirra stjörnuleikmanna sem gátu ekki mætt á æfingu enska landsliðsins í morgun, en liðið er nú að leggja lokahönd á undirbúning fyrir leikinn gegn Ísraelum í undankeppni EM á Wembley á laugardaginn. Alls voru fjórir lykilmenn enska liðsins fjarverandi í morgun.

Gerrard er enn að jafna sig eftir að hafa tábrotnað í Evrópuleik á dögunum og hann er talinn tæpur fyrir leikinn gegn Ísrael þó hann hafi lofað að spila ef hann verði valinn í liðið. Enska liðið þarf nauðsynlega að fá fjögur stig út úr leikjunum við Ísrael og Rússa til að eiga von á að tryggja sér sæti á EM næsta sumar.

Gerrard æfði einn í æfingasal í morgun þegar enska liðið kom saman á æfingasvæði Arsenal í Lundúnum. Fyrirliðinn John Terry var ekki á æfingunni í morgun þar sem hann átti við smávægileg veikindi að stríða og Owen Hargreaves kenndi sér meins í hné og var því heldur ekki með. Þá er miðjumaðurinn Frank Lampard heldur ekki að æfa með liðinu og er mjög tæpur eftir að hafa rifið vöðva á æfingu hjá Chelsea á föstudaginn.

Leikur Englendinga og Ísraela verður sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn á laugardaginn og hefst útsending klukkan 15:45 og þar á eftir verður stórleikur Svía og Dana sýndur beint. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×