Innlent

Aðeins eiga að vera ein hjúskaparlög í landinu

MYND/NFS

Frosti Jónson, formaður Samtakanna 78, segir nýja könnun á afstöðu presta til þess hvort heimila eigi prestum að staðfesta samvist samkynhneigðra, skref í rétta átt en það sé afstaða samtakanna að það eigi aðeins að vera ein hjúskaparlög í landinu.

Eins og fram kom fyrr í dag leiðir ný viðhorfskönnun meðal starfandi presta í ljós að mikill meirihluti þeirra, eða 65 prósent, er fylgjandi því að prestar innan Þjóðkirkjunnar fái heim til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Svipað hlutfall segist myndu nýta slíka heimild.

Frosti bendir á að nú séu í gildi tveir lagabálkar, lög um staðfesta samvist sem nái til samkynhneigðra og hjúskaparlögin sem gildi um gagnkynhneigða. Almennt telji hann að í landinu eigi ein hjúskaparlög að gilda sem gangi yfir alla og því sé enn töluvert í land.

Frosti segir að Þjóðkirkjan verði að finna málinu farveg innan sinna raða en ný ríkisstjórn hafi það á stefnuskráinni að leyfa trúfélögum að staðfesta samvist samkynhneigðra. Það gangi skemur en Samtökin 78 vilji og fullnaðarsigur náist ekki fyrr en allir standi jafnir fyrir lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×