Innlent

Íbúðalán hafa hækkað um 40 prósent á þremur árum

Glitnir hækkaði vexti af nýjum íbúðalánum í morgun og hefur þá hækkað vexti af þess háttar lánum um fjörutíu prósent á tæpum þremur árum.

Vextir húsnæðislána án vaxtaendurskoðunar hækka úr 5,20 prósentum í 5,80 prósent. Ástæður hækkunarinnar segja Glitnismenn mega rekja til vaxtahækkana á mörkuðum undanfarið og aðstæðna á fjármálamarkaði. Aðeins er rúmur mánuður síðan bankinn hækkaði vexti af húsnæðislánum síðast.

Rök Kaupþings banka voru þau sömu þegar hann hækkaði húsnæðislánavexti án endurskoðunar upp í 5,95 prósent um síðustu mánaðamót, sem nemur 43 prósenta hækkun á tæpum þremur árum.

Síðasta hækkun Landsbankans á lánum án endurskoðunaákvæða var upp í 5,40 prósent þannig að hann hefur hækkað vexti minnst síðan bankarnir fóru inn á þennan markað fyrir tæpum þremur árum.

Vextir af lánum með endurskoðunarákvæðum hafa hækkað meira, eða allt upp i 6,5 prósent hjá Glitni, og vextir af viðbótarlánum Kaupþings banka yfir 80 prósent af kaupverði, fara upp í 6,95 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×