Innlent

Ekki líklegt að knapinn yrði sakfelldur

Dýralæknafélag Íslands lýsir yfir furðu og hneykslan á því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi ákveðið að ákæra ekki í máli hestamanns sem margsinnis misþyrmdi hesti sínum í apríl síðastliðnum. Lögreglan taldi ekki líklegt að knapinn yrði sakfelldur fyrir barsmíðarnar.

Fréttaskýringaþátturinn Kompás fjallaði um málið í apríl síðastliðnum. Þættinum bárust myndir af knapa misþyrma hesti sínum ítrekað á Vatnsenda í Kópavogi. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og Halldór Runólfsson yfirdýralæknir sagði málið háalvarlegt í samtali við Kompás og sagði að kæra þyrfti knapann fyrir barsmíðarnar.

Gunnar Örn Guðmundsson héraðsdýralæknir í Gullbringu og kjósarumdæmi kærði málið til lögreglu skömmu eftir þáttinn þar sem hann taldi barsmíðarnar augljóst brot á dýraverndalögum. Í síðustu viku greindi lögreglustjóraembættið frá því að ekki yrði ákært í máli knapans. Jón HB Snorrason aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins en sagði rannsókn þess hafa leitt í ljós að ekki þótti ástæða til að ákæra í málinu. Þrátt fyrir að barsmíðarnar teldust ámælisverðar nægði það líklega ekki til að sakfella knapann.

 

Sif Traustadóttir formaður Dýralæknafélags Íslands segir ákvörðun lögreglunnar óskiljanlega. Hún segir augljóst að pottur sé brotinn í kerfinu þegar ekki sé ákært í máli sem þessu og telur nauðsynlegt að breyta dýraverndarlögunum.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×