Innlent

Mikil afturför hefti borgaryfirvöld afgreiðslutíma skemmtistaða

Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna segir það mikla afturför hyggist borgaryfirvöld hefta afgreiðslutíma skemmtistaða í Reykjavík til að bregðast við svo kölluðum vanda í miðbænum. Hann segir miðbæjarvandann hafa verið mun alvarlegri þegar afgreiðslutími skemmtistaða var takmarkaðri fyrir nokkrum árum.

Mikið hefur verið fjallað um vandann í miðborg Reykjavíkur um helgar og funduðu borgaryfirvöld með lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins í síðustu viku um samræmdar aðgerðir um málefni miðbæjarins. Ekkert hefur verið ákveðið í þeim efnum en viðraðar hafa verið hugmyndir um hvort samræma eigi afgreiðslutíma skemmtistaða og endurskoða útgáfufjölda veitingaleyfa.

Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, segir hugmyndir borgaryfirvalda og lögreglustjóra afturhvarf til fortíðar. Hann segir að þegar öllum skemmtistöðum í miðborginni var lokað á sama tíma fyrir nokkrum árum hafi vandinn í miðbænum verið mun stærri en hann sé í dag.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, lýsti því yfir fyrir skömmu að hann vildi stórefla löggæslu í miðbænum um helgar og sagði nauðsynlegt að hún yrði sýnilegri. Borgar Þór fagnar aukinni löggæslu og segir það mun betri lausn en hugmyndir borgaryfirvalda um að hefta afgreiðslutíma skemmtistaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×