Innlent

Segir Jón Ásgeir ekki koma að tilboði í Newcastle

MYND/Vilhelm

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnformaður Baugs, kemur ekki að kauptilboði íslenskra fjárfesta í enska úrvalsdeildarliðið Newcastle. Að sögn Sindra Sindrasonar, talsmanns Jóns Ásgeirs, er það ekki rétt sem fram hefur komið í fjölmiðlum að hann hafi hug á að eignast hlut í þessu fornfræga félagi. Aðspurður sagðist Sindri ekki vita hverjir kæmu að tilboðinu.

Greint var frá því í gær að Jón Ásgeir og Pálmi Haraldsson athafnamaður hefðu hug á að kaupa félagið í félagi við Alan Shearer, fyrrverandi leikmann Newcastle og enska landsliðsins. Hefur fréttastofa Stöðvar 2 fyrir því traustar heimildir. Þar kom fram að viðræður væru komnar langt án þess að skrifað hefði verið undir samning.

Pálmi Haraldsson vildi í samtali við Vísi í gær hvorki játa því né neita að hann ætti í viðræðum við núverandi eiganda um kaup á félaginu. „Newcastle er flottur klúbbur, með flottan stjóra og ég hef haldið lengi með liðinu," sagði Pálmi og hló.

Newcastle er gríðarlega sterkt knattspyrnufélag, það 13. stærsta í heiminum í dag. Stuðningsmenn félagsins eru mjög hollir sínum mönnum og yfirleitt er yfirfullt á velli félagsins, St. James' Park.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×