Innlent

Auðveldara að fá rokkstjörnu en smíðakennara í kennslu

Vel gengur að manna leik- og grunnskóla í stærstu þéttbýliskjörnunum út á landi
Vel gengur að manna leik- og grunnskóla í stærstu þéttbýliskjörnunum út á landi MYND/365

."Við erum nánast með fullmannað í stöður hjá okkur og ástandið því nokkuð gott. Það sem okkur skortir eru tveir smíðakennarar. En í þessari þennslu sem er núna í byggingariðnaðinum er auðveldara að fá rokkstjörnu í heimsókn en smíðakennara í kennslu," segir Kristín Jónasdóttir grunnskólafulltrúi á Ísafirði.

Það er sama sagan í stærstu þéttbýliskjörnunum um allt land. Nær engin vandræði með að manna stöður á leik- og grunnskóla öfugt við það sem er á höfuðborgarsvæðinu.

"Allar stöður á leikskólum í bænum eru fullmannaðar og við höfum verið með mikinn stöðuleika hvað varðar starfsfólk þar," segir Kristín. "Hinsvegar þurfum við að nota nokkuð af leiðbeinendum í stað réttindakennara. Leiðbeinendur hjá okkur hafa þó verið ötulir við að útvega sér kennsluréttindi og nú eru tveir slíkir að útskrifast. Ég hef ekki tekið það nákvæmlega saman en reikna með að leiðbeinendur hjá okkur verði ívið fleiri en í fyrra."

Gunnar Gíslason fræðslustjóri Akureyrarbæjar segir að ástandið sé mjög gott í bænum hvað varðar að manna leik- og grunnskólana. "Við erum með leikskólanna fullmannaða og hvað grunnskólana varðar vantar okkur aðeins að manna tvær stöður," segir Gunnar. "Hvað hlutfall leiðbeinenda varðar má nefna að af 240 kennarastöðum eru aðeins tveir leiðbeinendur."

Gunnar segir að kennaradeild Háskólans á Akureyri eigi stórann þátt í hve hátt hlutfall faglærðra kennara er í grunnskólum bæjarins.

Marías Benedikt Kristjánsson skólastjóri Nesskóla í Fjarðarbyggð segir að hann sé með fullmannaðann skóla fyrir veturinn. Það vanti hinsvegar fólk í tvær stöður á skóladagheimilið og skólaliða en Marías reiknar með að manna þær stöður nú eftir helgina. Hinsvegar notist skólinn við töluvert af leiðbeinendum eins og verið hefur undanfarin ár.

Guðbjartur Ólafsson yfirkennari í Vallaskóla í Árborg segir að staðan hjá þeim sé mjög góð. "Við erum búnir að manna alla stöður hjá okkur fyrir veturinn og leiðbeinendur eru ekki margir," segir Guðbjartur. "Það eina sem er eftir er að ráða aðstoðarfólk á skólavistina en við erum bjartsýn á að það gangi einnig vel."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×