Innlent

Hiti í íbúum Kársness

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Mikill hiti var á fjölmennum íbúafundi í Salnum í Kópavogi í gærkvöldi þar sem tekist var á um framtíðaruppbyggingu á Kársnesi. Bæjarstjórinn kallaði gagnrýnina nánast óvægna, en sagðist tilbúinn að skoða kröfur íbúanna. Þeir krefjast þess að upplýsingar sem bærinn afhendir varðandi skipulagið séu réttar og skora á bæinn að falla frá núverandi áformum.

Núverandi áform um framtíðaruppbyggingu á Kársnesinu gera ráð fyrir stækkun hafnarsvæðisins, landfyllingu og aukningu atvinnu- og íbúðahúsnæðis. Um 400 manns mættu til fundarins í Salnum í gærkvöldi sem íbúasamtökin Betri byggð stóðu fyrir.

Arna Harðardóttir formaður samtakanna segir íbúana hafa þungar áhyggjur af fyrirhugaðri uppbyggingu sem hefur meðal annars í för með sér tvöföldun íbúafjölda. Bæjarstjórnin hafi auk þessi ekki lagt neinar tillögur fram um hvernig bregðast eigi við aukinni umferð og mengun.

Íbúarnir krefjast þess að bærinn komi til móts til vilja þeirra.

Hiti var í fólki á fundinum og fjöldi manns tjáði sig um áhyggjur af framtíð svæðisins. Bæjarstjórn tæki tillit til vilja verktaka og peningamanna á kostnað íbúa Kársness.

Tekist var á um stækkun skipahafnar á landfyllingu og fermetrafjölda hennar. Bæjarstjórinn sakaði formann Betri byggðar um að fara með rangt mál og að "ljúga upp í opið geðið á mér." Arna Harðardóttir svaraði því til að upplýsingarnar væru fengnar úr skýrslum bæjarins.

Bæjarstjórinn tilkynnti að lokum að fundur yrði haldinn innan tíðar með íbúum Kársnessins um framhald málsins.


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri segir gagnrýni Kársnesbúa óvægna

Íbúar á Kársnesi í Kópavogi voru ómyrkir í máli í gærkvöldi á fjölmennum fundi með bæjarstjóra um fyrirhuguð byggingaráform á nesinu. Íbúarnir skora á bæjaryfirvöld að falla frá áformunum og koma til móts við vilja íbúa með framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Bæjarstjórinn segir gagnrýni íbúanna jaðra við að vera óvægna, en að hann sé tilbúinn að skoða kröfur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×