Innlent

Vonast eftir að viðræður hefjist í september

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í gær að breyta skipulagi í sveitarfélaginu þannig að olíuhreinsistöð geti risið í landi Hvestu í Arnarfirði. Viðræður milli aðstandenda stöðvarinnar og landeigenda eru þó ekki hafnar en bæjarstjórinn í Vestuggð vonar að ef allt gangi að óskum verði hægt að hefja byggingu stöðvarinnar næsta vor.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar ákvað að breyta skipulaginu eftir að Íslenskur hátækniiðnaður, sem hefur áform um að reisa olíuhreinsunarstöðina, komst að samkomulagi við landeigendur í Hvestu í Arnardal að hefja undirbúning viðræðna um landakaup undir stöðina.

Ólafur Egilsson, fyrrverandi sendiherra, sem er einn forsvarsmanna Íslensks hátækniiðnaðar, segir að hugmyndir séu uppi um stöð sem unnið geti átta milljónir tonna af jarðolíu á ári. Stöð af þeirri stærðargráðu þurfi um 130 hektara af landsvæði. Ólafur segir að landssvæði í Hvestu í Arnarfirði sé rúmt fyrir stöð af þeirri stærð. Í Hvestudal hefur verið reist virkjun, Hvestuvirkjun, og segir Ólafur að ekkert sé því til fyrirstöðu að hún starfi áfram.

Aðspurður hvenær viðræður við landeigendur um kaup hefjist segir Ólafur að það verði áður en langt um líður. Nú standi yfir frumathuganir á náttúrufari og aðstæðum á svæðinu ásamt þeim samfélagslegu áhrifum sem svo stórt fyrirtæki hafi á Vestfjörðum. Þeirri athugun eigi að ljúka nú í september og viðræður um landakaup hefjist væntanlega í framhaldinu.

Svæðið í Hvestudal er þó ekki eini staðurinn sem Fjórðungssamband Vestfirðinga skoðar því land Sanda í Dýrafirði er einnig til athugunar. Það er í eigu Ísafjarðarbæjar og þar á bæ hafa menn lýst yfir áhuga á olíuhreinsistöð. Ísfirðingar hafa hins vegar ekki tekið ákvörðun um að breyta aðalskipulagi líkt og Vesturbyggðarmenn.

Ragnar Jörundsson, bæjarstjóri Vesturbyggðar, segir byggingu olíuhreinsistöðvar vera lífsspurssmál fyrir framtíð byggðar á svæðinu. Stöðin skapi 500 störf og þá skapist einnig mörg hundruð afleidd störf tengd stöðinni..

Ef af verður, segir Ragnar, ætti að vera hægt að vinna umhverfismat fyrir stöðina í vetur og þá gætu framkvæmdir í landi Hvestu hafist strax næsta vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×