Innlent

Vaxtastefna Seðlabankans vanmáttugt tæki

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. MYND/GVA

Nauðsynlegt er að endurskoða verðbólgumarkmið Seðlabankans að mati Samtaka atvinnulífsins. Samtökin hafa nú sent forsætisráðherra bréf þar sem þau ítreka áhyggjur sínar af afleiðingum peningamálastefnu Seðlabankans. Telja þau ljóst að aðgerðir bankans hingað til hafi haft skaðleg áhrif á atvinnulífið og þjóðarbúið í heild.

Samtökin sendu forsætisráðherra bréf í byrjun júnímánaðar þar sem þau lýstu yfir sömu áhyggjum. Með bréfinu nú ítreka samtökin áhyggjur sínar og hvetja jafnframt til þess að peningamálastefna Seðlabankans verði endurskoðuð.

Benda þau meðal annars á það að vaxtastefna Seðlabankans hafi reynst vanmáttugt tæki til að hafa stjórn á vísitölu neysluverðs. Hins vegar hafi vaxtastefnan leitt til verulegra sveiflna á gengi íslensku krónunnar sem hafi átt drjúgan þátt í miklum halla á vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd og gert útflutnings- og samkeppnisatvinnuvegunum mjög erfitt fyrir.

Samtökin skora á forsætisráðherra að endurskoða samkomulag ríkisstjórnarinnar við Seðlabankann um verðbólgumarkmið og lýsa sig jafnframt reiðubúin til að taka þátt í slíku endurskoðunarferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×