Innlent

Aron Pálmi fær ekki einkaflug eins og Fischer

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hin langþráða stund nálgast hjá Aroni Pálma
Hin langþráða stund nálgast hjá Aroni Pálma Mynd/ Rohn Wessler

Aron Pálmi Ágústsson verður látinn laus á laugardaginn eftir 10 ára refsivist í Texas. Hann mun ekki fá einkaflug heim og mun ferðast með Icelandair

Aron Pálmi ætlar að hefja íslenskunám við Háskóla Íslands og vonast til að geta byrjað í haust. Aron Pálmi talar ekki íslensku. Aron hefur setið í refsivist í Texas í 10 ár. Hann var dæmdur fyrir kynferðisafbrot 13 ára gamall.

„Ég reikna með að Aron þurfi töluverða aðstoð og aðlögun þegar hann kemur hingað heim" segir Einar S. Einarssonar, talsmaður RJF hópsins, sem hefur unnið að því að fá Aron lausan úr haldi.

Einar segir að Valgerður Hermannsdóttir, móðursystir Arons, hafi farið til Texas í gær til að styðja Aron síðustu tvo daga refsitímans. Hún muni svo fylgja honum til Houston þar sem hann hittir móður sína og stjúpföður.

Aron mun dvelja hjá fjölskyldu sinni í viku en er væntanlegur heim til Íslands 26. ágúst næstkomandi. Einar segir að það verði engin móttökuathöfn fyrir Aron Pálma í Leifsstöð. Hann fái heldur ekki einkaflug heim líkt og skáksnillingurinn Bobby Fischer. Aron þarf því að láta sér nægja sæti í Icelandair á almennu farrými.

„Hins vegar verður athöfn hjá fangelsismálayfirvöldum í Beaumont þegar ökklaband með staðsetningartæki verður klippt af Aroni," segir Einar.

RJF hópurinn háði þrotlausa baráttu fyrir lausn Bobbys Fisher. Þegar Fisher kom til landsins á vormánuðum 2005 var honum flogið með vél í eigu Baugs. Svo fékk hann viðhafnarmóttökur frá fjölmiðlafólki á Reykjavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×