Innlent

Sturla vill gefa Kristjáni svigrúm vegna Grímseyjarferju

MYND/Teitur

Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis og fyrrverandi samgönguráðherra, ætlar ekki að tjá sig um svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar sem birt var í gær. Sturla segir eðlilegt að núverandi samgönguráðherra, Kristján L. Möller, fái svigrúm til að vinna úr málinu.

Í skýrslunni eru gerðar margvíslegar athugasemdir við það hvernig staðið var að kaupum og endurbótum á nýrru Grímseyjarferju og fær samgönguráðuneytið sinn skerf af gagnrýninni. Í dag barst síðan yfirlýsing frá ráðuneytisstjóra samgönguráðuneytisins þar sem fram kemur að athugasemdir Ríkisendurskoðunar séu litnar mjög alvarlegum augum í ráðuneytinu.

„Ljóst er að orðið hefur ákveðið brot á skýrum verklagsreglum ráðuneytisins sem kveða á um að gera skuli vandaða verkefnaáætlun sem innihaldi m.a. verklýsingu, tíma- og kostnaðaráætlun. Jafnframt ber verkefnisstjóra að upplýsa ráðuneytisstjóra um gang mála og fá samþykki fyrir verkefnaáætlun. Við framkvæmd þessa máls var þessum verklagsreglum ekki fylgt. Tekið verður á því með viðeigandi hætti og í samræmi við góða stjórnsýslu," segir í yfirlýsingunni.

Sturla, sem var samgönguráðherra á því tímabili sem skýrsla Ríkisendurskoðunar nær til sagði hins vegar í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, að hann ætlaði sér ekki að tjá sig um málið. „Ég hef ekki talið rétt að tjá mig um skýrslu Ríkisendurskoðunar að svo stöddu. Ég tel eðlilegt að núverandi samgönguráðherra hafi svigrúm til þess að vinna að málinu án þess að ég sé að tjá mig."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×