Innlent

Ríkisendurskoðun gagnrýnir agaleysi í fjármálum ríkisstofnana

Sigurður Þórðarson forstjóri ríkisendurskoðunnar: Gagnrýnir agaleysið í fjármálum ríkisstofnanna.
Sigurður Þórðarson forstjóri ríkisendurskoðunnar: Gagnrýnir agaleysið í fjármálum ríkisstofnanna.

"Ríkisendurskoðun gagnrýnir agaleysið sem einkennir framkvæmd fjárlaga og má bæði rekja til forstöðumanna stofnana og stjórnenda þeirra ráðuneyta sem þær heyra undir. Brýnt er að stofnanir og ráðuneyti sem hlut eiga að máli ráði sem fyrst bót á þessum vanda."

Þetta segir m.a. í frétt frá Ríkisendurskoðun um framkvæmd fjárlaga á síðasta ári en skýrsla stofnfunarinnar er nú til umræðu á fundi fjárlaganefndar alþingis. Fram kemur að í lok árs 2006 voru um tveir af hverjum þremur fjárlagaliðum í A-hluta ríkisins annaðhvort með of- eða vannýttar heimildir umfram 4% vikmörk reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Fjárlagaliðum í halla fækkaði nokkuð frá árinu 2005 þegar þeir voru 96 (19,6%) en í heild jókst halli þeirra úr um 8 milljarða kr. árið 2005 í um 13,7 milljarða kr. árið 2006.

 

Ríkisendurskoðun bendir á að það sé Alþingis að ákvarða umfang opinberrar þjónustu með fjárlögum hvers árs. Forstöðumenn einstakra ríkisstofnana hafa engu að síður tekið sér vald til að auka þjónustuna eða draga úr henni frá því sem löggjafinn hefur mælt fyrir um og ákvarðað er með fjárveitingum til stofnananna.

Í þessu samhengi bendir Ríkisendurskoðun á að forstöðumönnum ríkisstofnana ber skilyrðislaust að reka stofnanir sínar innan fjárheimilda og leitast við að tryggja að svo sé. Brot á þeim starfsskyldum þýða lögum samkvæmt áminningu eða lausn frá störfum. Það heyrir hins vegar til algjörra undantekninga að ráðuneyti beiti slíkum viðurlögum og verður að telja það brotalöm á verklagi við framkvæmd fjárlaga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×