Innlent

Vilja úttekt á aðgengi fyrir fatlaða í nýrri Grímseyjarferju

Sigursteinn Másson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur sent samgönguráðherra, vegamálastjóra og siglingamálastjóra erindi þar sem þess er krafist að aðgengi og öryggi fyrir alla verði tryggt í nýrri Grímseyjarferju.

Vísað er til sjónvarpsviðtals við núverandi samgönguráðherra skömmu fyrir kosningar til Alþingis en þar kom fram að aðgengi fyrir fatlaða væri slæmt í hinni nýju ferju. Ekki hafi verið leitað til ÖBÍ eða ferlinefndar bandalagsins um aðgengisúttekt á skipinu og bandalagið hafi engar upplýsingar fengið um aðgengismál ferjunnar.

Bent er á að samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins beri að tryggja hreyfihömluðum aðgang að farþegaskipum og vill bandalagið að tafarlaus úttekt verði gerð á aðgengi um borð í nýrri Grímseyjarferju. Jafnframt að samráð verði haft við bandalagið um nauðsynlegar endurbætur í því skyni að tryggja gott aðgengi og öryggi fyrir alla í nýrri Grímseyjarferju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×