Innlent

Hagkaup innkallar leikfangabíla frá Mattel

Hagkaup hefur innkallað ákveðna tegund leikfangabíls sem leikfangarisinnn Mattell framleiddi. Um er að ræða svokallaðan Cars Sarge bíl og eru allir sem keyptu slíkan bíl, bæði stakan og í pakkningu með öðrum bíl á tímabilinu maí til dagsins í dag, beðnir um að skila honum strax í næstu verslun Hagkaupa. Mattel hefur ekki gefið út tilkynningu um afturköllun á öðrum Cars-bílum.

Eins og greint hefur verið frá í fréttum hefur Mattel innkallað alls átján milljónir leikfanga í heiminum sem ýmist eru þakin málningu sem inniheldur of mikið af blýi eða hafa að geyma segla sem geta verið hættulegir börnum. Leikföngin voru framleidd í Kína.

Í tilkynningu frá Hagkaupum segir að gengið hafi verið úr skugga um að verslanirnar hafi ekki fengið aðrar gallaðar sendingar en umrædda Cars Sarge bíla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×