Innlent

Sýslumenn kostuðu meir en gert var ráð fyrir

Gunnar Svavarsson: Landlægur ósiður að ríkisstofnanir fari framúr fjárlögum.
Gunnar Svavarsson: Landlægur ósiður að ríkisstofnanir fari framúr fjárlögum.

Á fundi fjárlaganefndar síðdegis í dag verður rætt um skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2006. Þar kemur fram hvernig ríkisstofnanir hafa haldið sig innan fjárlaga. Gunnar Svavarsson formaður fjárlaganefndar segir að nýlundan í skýrslunni sé væntanlega sú að dómsmálaráðuneytið fari nokkuð framúr fjárlögum og sé það einkum sökum þess að sameining og breytingar á sýslumannsembættum hafi kostað meir en gert var ráð fyrir á síðasta ári.

Alls nær skýrslan til um 400 ríkisstofnana og segir Gunnar að um fjórðungur þeirra fari fram úr fjárlögum. Hér sé einkum um stofnanir á sviði heilbrigðis- og menntamála að ræða auk utanríkisþjónustunnar. Stofnanir dómsmálaráðuneytisins hafa hinsvegar yfirleitt haldið sig innan síns fjárlagaramma hingað til.

"Það er landlægur ósiður hér á landi að ríkisstofnanir fari fram úr þeim fjárlögum sem þeim eru sett," segir Gunnar Svavarsson. "Ég mun í störfum mínum leggja mikla áherslu á að breyta þessu enda er þessi vandi einsdæmi meðal Evrópuríkja."

Gunnar segir að skoða beri sérstaklega þær stofnanir sem fari fram úr fjárlögum ár eftir ár. "Kannski hefur þar verið vitlaust gefið í upphafi og þá ber okkur að leiðrétta slíkt," segir Gunnar. "En menn verða að skilja að fjárlög eru lög og fara ber eftir þeim."

Önnur mál á dagskrá nefndarinnar í dag verða Grímseyjarferjan og fjármál Ratsjárstofnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×