Innlent

Ljósmyndir af íslenskum börnum misnotaðar - lögreglan getur lítið gert

Lögreglan athugar nú meinta misnotkun á ljósmyndum af íslenskum börnum sem upphaflega voru settar inn á vefsíðuna barnaland.is. Ljósmyndirnar enduðu á rússneskri heimasíðu þar sem meðal annars má finna barnaklám. Lögreglan segist hins vegar geta gert lítið í málinu þar sem rússneska síðan sé fyrir utan lögumráðasvæði hennar.

„Við vitum af þessu máli og fylgjumst með þessu," sagði Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar, í samtali við Vísi. „Við getum hins vegar lítið gert þar sem um er að ræða vefsíðu sem er fyrir utan okkar lögumráðasvæði."

Myndir af íslenskum börnum má finna á erlendum barnaklámssíðum. Í tenglasafni rússneskrar vefsíðu má finna tengla á myndir af íslenskum börnum sem hýstar eru á vefsvæði Barnalands. Notendur Barnalands voru hvattir í gær til að loka heimasvæðum sínum til að koma í veg fyrir misnotkun af þessu tagi.

Björgvin segir þetta ekki í fyrsta skipti sem svona lagað kemur upp. Hann hvetur foreldra til að læsa síðunum sínum. „Möguleikinn á svona misnotkun er alltaf fyrir hendi. Þess vegna hefur alltaf verið hvatt til þess að foreldrar læsi síðunum til að koma í veg fyrir að óviðkomandi aðilar hlaði niður myndum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×