Innlent

Vegagerðin ber ábyrgð á mistökum varðandi nýja Grímseyjarferju

Jón Rögnvaldsson vegamálastjóri segir að Vegagerðin ber ábyrgð á því hvernig málum er komið með endurnýjun á Grímseyjarferjunnar og þar með hann. Hann segist ekki ætla segja upp störfum vegna málsins enn sem komið er.

Jón var gestur í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í ag og ræddi þar um svarta skýrslu Ríkisendurskoðunar um kaup og endurnýjun á Grímseyjarferju. Ríkisendurskoðun fer ófögrum orðum um vinnubrögðin og telur að undirbúningur verksins hafi verið ófullnægjandi og skoðun ferjunnar áður en hún var keypt hafi verið ábótavant. Þá gerir ríkisendurskoðandi athugasemdir við losarabrag á kostnaðaráætlunum og segir fjölmargt í störfum verksalans, sem er Vélsmiðja Orms og Víglundar, vera gagnrýnivert.

Jón segir að mjög margar aðfinnslur séu í skýrslunni og að því leyti sé hún svört. „Það hefur sýnilega margt farið úrskeiðis og margt sem hefði betur mátt fara og við verðum að sjálfsögðu að draga lærdóm af því. Við tökum þær ábendingar og þær aðfinnslur sem koma fram í skýrslunni mjög alvarlega," segir Jón.

Kristján L. Möller samgönguráðherra lýsti því yfir eftir að skýrslan var gerð opinber að hann ætlaði að láta gera stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni. Jón segist ekki kvíða henni. „Hann [samgönguráðherra] á góðan rétt á að gera það," segir Jón og bendir á að Vegagerðin hafi nýverið farið í gegnum stjórnsýsluúttekt.

Aðspurður hver beri ábyrgð á þessum verkkaupum segir Jón að Vegagerðin geri það að sjálfsögðu. Spurður hvernig Vegagerðin og hann muni axla þá ábyrgð segir Jón: „Úr því sem komið er þá er það eina sem við getum gert er að taka þær ábendingar sem koma alvarlega, fara í gegnum þær að og reyna að tryggja að svona lagað komi ekki fyrir aftur," segir Jón og segist aðspurður ekki munu segja upp enn sem komið er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×