Innlent

Vegagerðin skili verk- og kostnaðaráætlun fyrir vikulok

MYND/Vilhelm

Samgönguráðuneytið hefur falið Vegagerðinni að mynda umsvifalaust sérstakan verkefnahóp vegna Grímseyjarferjunnar í kjölfar svartrar skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurbætur á nýrri ferju. Hópnum er ætlað að fara yfir stöðu málsins og gæta hagsmuna ríkissjóðs. Ráðherra hefur einnig óskað eftir nákvæmri verk- og kostnaðaráætlun og á að skila henni nú fyrir vikulok.

Þá segir einnig í tilkynningu frá ráðuneytinu að „Þar sem ljóst má vera af lestri greinargerðar Ríkisendurskoðunar að ráðgjöf sérfræðings Vegagerðarinnar hafi brugðist og að litið hafi verið framhjá ráðgjöf Siglingastofnunar sem mælti með frekari skoðun áður en ráðist yrði í kaupin hefur samgönguráðherra jafnframt gefið Vegagerðinni þau fyrirmæli að stofnunin leiti sér nýrrar ráðgjafar á þessum lokaspretti málsins og nýti sér þekkingu Siglingastofnunar."

Að síðustu kemur fram að samgönguráðherra hafi óskað eftir því við ríkisendurskoðun að stjórnsýsluúttekt verði þegar gerð á Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×