Innlent

Æfa flutning liðsafla til landsins á ófriðartímum

Heræfingin Norður-Víkingur hófst formlega í morgun, en síðustu þátttakendurnir komu hingað til lands í gær. Alls koma um þrjú hundruð manns að æfingunni, frá Íslandi, Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi. Atlantshafsbandalagið kemur einnig að æfingunni. Henni er skipt í tvennt, loftvarnaræfingu og æfingu gegn hryðjuverkum.

Heræfingin stendur nú yfir á Keflavíkurflugvelli og er markmiðið að æfa flutning liðsafla til landsins á hættu- og ófriðartímum. Fyrirhugað er að æfingar af þessu tagi verði reglubundinn hluti af varnarviðbúnaði á Íslandi.

Æfingin skiptist upp í tvo aðskilda þætti, loftvarnaæfingu og æfingu gegn hryðjuverkum. Yfirstjórn æfingarinnar er í höndum fulltrúa utanríkisráðherra. Í loftvarnaæfingunni taka þátt Bandaríkjamenn með þrjár F-15 orrustu flugvélar og tvær KC-135 eldsneytisflugvélar og Norðmenn með tvær F-16 vélar og D-3 eftirlits- og kafbátaleitarflugvél. Frá Atlantshafsbandalaginu eru tvær AWAC´s-rátsjárflugvélar.

Varðskipið Tríton tekur einnig þátt í hluta æfingarinnar og stendur leitar- og björgunarvaktina. Það var mat manna að vera Dananna væri ákaflega mikilvægur öryggisþáttur í þessari æfingu. Stjórnstöð íslenska loftvarnakerfisins mun gegna hlutverki sem yfirstjórn þessarar æfingar. Enn fremur mun Landhelgisgæslan leggja til tvær björgunarþyrlur á meðan á æfingunni stendur.

Í æfingunni gegn hryðjuverkum taka þátt 20 norskir, sex danskir og 15 lettneskir sérsveitarmenn auk íslenskra sérsveitarmanna. Jón Bjartmarz hjá Ríkislögreglustjóra sagði í samtali við Stöð 2 í morgun að það væri mjög mikilvægt fyrir íslenska sérsveitarmenn að fá að kynnast starfsbræðrum sínum frá öðrum þjóðum og menn væru að samhæfa aðgerðir gegn hryðjuverkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×