Erlent

Fjögur fyrirburalík fundust í húsi konu í Maryland í Bandaríkjunum

Fjögur fyrirburalík fundust á heimili 37 ára gamallar konu í Maryland fylki í Bandaríkjunum í gær. Konan sem gekk með börnin hafði sett líkin af þeim í plastpoka og geymt þau víða um heimili sitt þegar lögreglan fann þau.

Konan fannst meðvitundarlaus á baðherbergi sínu og var flutt á spítala með miklar blæðingar og krampa. Hún neitaði því í fyrstu að hafa verið barnshafandi en lögreglan fann lík lítils drengs sem fæddur var á 26. meðgönguviku, vafinn í hvítt handklæði í plastpoka inn á baði. Eftir að lögreglan hafði fundið fyrsta líkið hóf hún leit á heimili konunnar og fann þrjú önnur fyrirburalík til viðbótar sem geymd voru í plastpokum víða um húsið. Konan var handtekin um leið.

Rannsókn hefur leitt í ljós að drengurinn sem konan hafði nýlega fætt fæddist andvana en andlátið er enn í rannsókn. Konan á fjögur önnur börn sem eru öll á unglingsaldri sem búa á heimili hennar og unnusta. Hún verður að öllum líkindum ákærð fyrir manndráp ef rannsókn leiðir í ljós að hún hafi drepið börnin.

Lögreglan rannsakar nú hvernig hin börnin þrjú létust, á hvaða aldri þau voru og hvort þau tengist konunni yfirhöfuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×