Innlent

Fjörtíu ára bindindi lokið

Fjörtíu ára sögu bindindishreyfingarinnar í Galtalækjarskógi er lokið með sölu landsins til systkyninanna Ingunnar, Karls og Steingríms Wernersbarna. Það eina sem ákveðið er með framtíð landsins er að halda þar áfram skógrækt en ekki er ljóst hvort svæðið verði opið almenningi í framtíðinni.

Bindindishreyfingin, IOGT, hefur rekið starfsemina í Galtalækjarskógi frá árinu 1967 eða í 40 ár. Þar hafa verið haldnar útihátíðir bindindismanna undanfarna áratugi, en Einar Hannesson formaður svæðisráðs IOGT segir að undanfarin ár hafi sú mikilvæga tekjulind hreyfingarinnar brugðist, aðallega vegna samkeppni frá bæjarhátíðum ýmis konar sem vaxið hefur fiskur um hrygg undanfarin ár.

Bindindishreyfingin hefur smátt og smátt eignast land Galtalækjarskógar, alls 107 hektara, en áður en kom til sölunnar nú, höfðu 23 hektarar verið seldir til Hekluhúsa undir sumarhúsabyggð. Systkinin Ingunn, Karl og Steingrímur kaupa því 84 hektara. Ingunn Wernersdóttir segir þetta tækifæri hafa boðist þeim og þau ákveðið að stökkva á það.

Ingunn segir systkinin ekki búin að ákveða hvað verði gert á Galtalækjarlandinu í framtíðinni, annað en öruggt sé að skógrækt haldi þar áfram. Hún vill ekki svara því hvort til greina komi að byggja þar upp sumarhúsalóðir.

Söluverðið fæst ekki gefið upp, en samkvæmt heimildum fréttastofunnar er brunabótamat fasteigna á jörðinni um eitt hundrað milljónir króna. Fasteignasali sem þekkir vel til verðs á jörðum sagði fréttastofunni að áætla mætti að verðmæti jarðar eins og Galtalæks væri einhvers staðar á bilinu 250 til 300 milljónir króna, en það ylti mikið á nýtingu landsins, verðmætið gæti jafnvel verið hærra.

En til að átta sig á stærð 84 hektara lands er ágætt að bera það saman við þekkt kennileyti eins og hverfi í Reykjavík. Ef Galtalækjarlandið yrði lagt yfir Reykjavík næði það yfir miðborgarhlutann í Kvosinni og allan norðurhluta Vesturbæjarins. Það er því ljóst að verulega má hagnast ef nýjir eigendur hyggjast byggja upp sumarhúsabyggð eða aðra starfsemi á svæðinu, sem ekkert liggur fyrir um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×