Fótbolti

Brasilía í úrslitaleikinn á Copa America

Brasilíumenn eru komnir í úrslitin á Copa America
Brasilíumenn eru komnir í úrslitin á Copa America AFP

Núverandi Suður-Ameríkumeistarar Brasilíu misstu tvisvar niður forskot gegn Úrúgvæ í undanúrslitaleik Copa America í nótt en tryggðu sér að lokum sæti í úrslitum í vítakeppni. Staðan í leiknum var jöfn 2-2 eftir venjulegan leiktíma og því varð að grípa til vítakeppni.

Bakvörðurinn Maicon kom Brasilíu yfir eftir stundarfjórðung en Diego Forlan jafnaði fyrir Úrúgvæ í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Gera þurfti 15 mínútna hlé á leiknum vegna bilunar í flóðljósum. Aðeins fimm mínútum eftir mark Forlan kom Julio Baptista brasilíska liðinu yfir á ný, en varamaðurinn Sebastian Abreu jafnaði á ný 20 mínútum fyrir leikslok.

Brasilíumenn sigruðu loks í bráðabana í vítakeppninni og létu mótherjarnir það fara í skapið á sér eftir leikinn. Úrúgvæ þurfti því að bíta í það súra epli að falla úr leik fyrir sama liði, á sama tíma og á sama hátt í undanúrslitum Copa America og fyrir þremur árum síðan.

Síðari undanúrslitaleikurinn í keppninni fer fram í kvöld og verður sýndur beint á Sýn. Það er viðureign Mexíkó og Argentínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×