Fótbolti

Pólverjar biðjast afsökunar

AFP

Jaroslaw Kaczynski, forsætistráðherra Póllands, hefur beðið kollega sinn Gediminias Kirklas í Litháen og alla viðkomandi afsökunar á því þegar pólskar fótboltabullur gengu berserksgang á leik Legia Varsjá og Vetra Vilinius í Inter Toto keppninni á dögunum.

Lögreglan í Litháen notaði táragas og vatnsbyssur til að reyna að skakka leikinn þegar pólskar bullurnar gerðu allt vitlaust á vellinum og stofnuðu til slagsmála sem stóðu yfir í 30 mínútur. Leikurinn í Vilinius var flautaður af í hálfleik vegna uppákomunnar þar sem heimamenn höfðu yfir 2-0. Viðgerðarkostnaður á vellinum er sagður nema um 21,000 evrum þar sem auglýsingaskilti, sæti, hlið, ferðaklósett og sjónvarpsútbúnaður var eyðilagður.

Uppakoma þessi er glóðurauga fyrir pólska knattspyrnusambandið sem fyrir aðeins 10 vikum fékk leyfi til að halda EM 2012 ásamt Úkraínu og óttast menn þar í landi að þetta gæti haft slæm áhrif í framtíðinni. 3000 stuðningsmenn fylgdu pólska liðinu til Litháen með fyrrgreindum afleiðingum og talið er víst að Vetra verði dæmdur 3-0 sigur í leiknum. Síðari leikurinn í einvíginu á að fara fram á laugardaginn, það er að segja ef Legia verður þá ekki vísað úr keppni. Sigurvegarinn í viðureigninni mætir Blackburn frá Englandi í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×