Innlent

Mótvægisaðgerðir geta styrkt landsbyggðina til lengri tíma

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja. MYND/ÓPF

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn niðurskurði aflaheimilda kann að styrkja samfélög á landsbyggðinni til lengri tíma ef rétt verður að þeim staðið. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum. Hann lýsir yfir skilningi á ákvörðun sjávarútvegsráðherra en finnst eðlilegt að á móti verði rannsóknir á þorskstofninum stórauknar.

Í yfirlýsingu bæjarstjórans kemur fram að ákvörðun ríkisstjórnarinnar muni hafa mikil áhrif í Vestmannaeyjum. Þorskurinn sé verðmætasta fisktegundin og skipti miklu máli í afkomu sjávarútvegsins í Eyjum.

Elliði segir erfitt að meta nákvæmlega hvað felist í mótvægisaðgerðum ríkistjórnarinnar. Hann segir skipta miklu máli að efla jöfnunarsjóð sveitarfélaga og að fjármagn til bættra samgangna, fjarskipta og menntunar á landsbyggðinni sé stóraukið.

Þá segir Elliði í yfirlýsingu sinni að nú sé komin upp sú staða að sjávarútvegur og verstöðvar þurfi tímabundna aðstoð til að laga sig að breyttum aðstæðum ef ekki á illa að fara. Að hans mati geta mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar hins vegar til lengri tíma styrkt samfélögin á landsbyggðinni ef rétt verður að þeim staðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×