Innlent

Sársaukafullt fyrir sjávarútveginn

Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna. MYND/PJ

Samdráttur á aflaheimildum í þorski um 63 þúsund tonn fyrir næsta fiskveiðiár á eftir að verða mjög sársaukafullt fyrir sjávarútveginn að mati framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann undrast að ríkisstjórnin skuli einungis taka mið af tillögum Hafrannsóknarstofnunar í ákvörðun sinni.

„Þetta er of mikill samdráttur á aflaheimildum í þorski," sagði Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, í samtali við Vísi. „Að okkar mati hefði verið eðlilegra að fara hægar í sakarnir. Þetta verður of sársaukafullt fyrir greinina."

Ríkisstjórnin kynnti í morgun tillögur sínar um heildarafla á komandi fiskveiðiári. Samkvæmt þeim minnkar aflaheimild í þorski um 63 þúsund tonn, úr 193 þúsund tonnum í 130 þúsund. Er það í fullu samræmi við tillögur Hafrannsóknarstofnunar. Áður höfðu útvegsmenn hins vegar lagt til að að kvótinn yrði ákvarðaður í kringum 155 til 160 þúsund tonn.

Samhliða kynnti ríkisstjórnin einnig mótvægisaðgerðir sem hafa það að markmiði að draga úr áhrifum ákvarðarinnar á sjávarbyggðir.

Friðrik segir það koma óvart að ríkisstjórnin skuli að öllu leyti fara eftir tillögum Hafrannsóknarstofnunar. „Hafrannsóknarstofnun er einungis álitsgjafi. Þetta á að vera ákvörðun stjórnvalda og það ætti að horfa á fleiri atriði. Við erum sammála því að það þurfi að byggja upp stofninn. Hins vegar er þetta spurning um það hvernig þau skref eru tekin og tryggt að þau skaði ekki atvinnugreinina."

Þá segir Friðrik stjórnvöld ekki koma nægjanlega til móts við útgerðarmenn í mótvægisaðgerðum sínum.„Stærsta málið er hágengisstefna Seðlabankans. Hún er stórskaðleg og við hefðum viljað sjá að mótvægisaðgerðirnar snertu á því máli. Seðlabankinn virðist ekki nokkrum tengslum við það sem er að gerast."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×