Innlent

Samtök atvinnulífsins vilja leggja niður vörugjöld

Samtök atvinnulífsins vilja leggja niður vörugjöld og segja þau úrelta skattheimtu og draug fortíðar. Þau telja vörugjöldin beina neyslu fólks í ákveðna vöruflokka án þess að neytendur geri sér grein fyrir því.

Samtök atvinnulífsins telja að verðlag hér á landi myndi verða sambærilegra við verðlag í hinum nágrannalöndunum ef vörugjöldin yrðu lögð niður. Hannes G. Sigurðsson aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífins segir vörugjöldin hafa verið sett á í staðinn fyrir ákveðna tolla sem felldir hafi verið niður þegar Ísland gekk í EFTA í kringum 1970.

Áætlað er að skatttekjur ríkissjóðs af vörugjaldi á þessu ári séu tæplega fjórir milljarðar króna sem sé rúmlega eitt prósent af tekjum ríkissjóðs.

Til að mynda bera vörur á borð við baðkör, vaska og salerni 15 % vörugjald, Eldavélar, örbylgjuofnar og þvottavélar bera 20 % vörugjald og sjónvarps og hljómflutningstæki bera 25 % vörugjald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×