Innlent

Alcan á Íslandi fór langt út fyrir velsæmismörk

Ætla kæra málið ef Alcan hefur brotið friðhelgi einkalífsins.
Ætla kæra málið ef Alcan hefur brotið friðhelgi einkalífsins. MYND/Hari

Alcan á Íslandi fór langt út fyrir velsæmismörk í aðdraganda kosninga um álverið í Hafnarfirði þegar það lagði að starfsmönnum sínum að safna sérstaklega upplýsingum um meðlimi Sólar í Straumi. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum Sól í Straumi. Talsmaður samtakanna segir margt benda til þess að fyrirtækið hafi brotið friðhelgi einkalífsins og segir koma til greina að kæra málið til lögreglu.

„Þetta er grafalvarlegt mál. Það er margt sem bendir til þess að fyrirtækið hafi farið langt út fyrir velsæmismörk," sagði Pétur Óskarsson, talsmaður samtakanna Sól í Straumi, í samtali við Vísi.

Í yfirlýsingu samtakanna Sól í Straumi er vísað í úrskurð Persónuverndar frá 2. júlí síðastliðnum um ábyrgð Alcan á Íslandi hf. á söfnun persónuupplýsinga í aðdraganda íbúakosninga í Hafnarfirði um álverið. Þar kemur fram að fyrirtækið hafi lagt það að starfsmönnum sínum að safna sérstaklega upplýsingum um meðlimi Sólar í Straumi.

Samtökin sendu í marsmánuði fyrirspurn til Rannveigar Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, þar sem óskað var eftir upplýsingum hvort skráðar hafi verið persónuupplýsingar um einstaka stjórnarmeðlimi samtakanna. Í fyrirspurninni var vísað í lög um persónuvernd þar sem kveðið er á um skýran rétt einstaklinga að vita hvaða persónuupplýsingum ábyrgðaraðili hefur skráð. Fyrirspurn samtakanna hefur enn ekki verið svarað.

Pétur segir erfitt fyrir samtökin að átta sig á umfangi málsins fyrr en fyrirspurn þeirra hefur verið svarað. Hann segir samtökin krefjast þess að fyrirtækið geri hreint fyrir sínum dyrum. „Við getum ekki fullyrt að fyrirtækið hafi brotið lög enda höfum ekki enn fengið svör við fyrirspurn okkar. Komi hins vegar í ljós að fyrirtækið hafi brotið friðhelgi einkalífsins kemur vel til greina að kæra málið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×