Innlent

Áfram bitist um Hitaveitu Suðurnesja

Sveitarfélögin fóru of bratt í átt til einkavæðingar orkufyrirtækja áður en pólitísk heildarstefna hefur verið mörkuð á því sviði segir viðskitptaráðherra og starfandi iðnaðaráðherra. Fjármálráðherra furðar sig á kapphlaupinu um Hitaveitu Suðurnesja. Aðkoma Orkuveitu Reykajvíkur er á skjön við stefnumörkun sem síðasta ríkisstjórn setti í einkavæðingarmálum.

Áfram er bitist um Hitaveitu Suðurnesja og kann vel að fara svo að það komi til málaferla vegna málsins. Á föstudag afsöluðu minni sveitarfélögin á Suðurlandi sér forkaupsrétti á hlut ríkisins með sölusamkomulagi við Geysi Green Energy. Hinir eigendurnir ætla sér að ganga inn í samning þess félags um kaup á hlut ríkisins. Fyrir klukkan fjögur í dag hafði Hafnarfjarðarbær, Grindavík og Reykjanesbær tilkynnt að þau ætluðu sér að nýta sér forkaupsréttarákvæði í ríkishlutginn. Með því fer heildarhlutur Reykjanesbæjar í Hitaveitunni í ríflega 50%.

Þegar Einkavæðingarnefnd ákvað að selja sinn 15% hlut í Hitaveitu Suðurnesja var ekki ætlast til þess að orkufyrirtæki í samkeppnisrekstri sendu inn tilboð. Aðkoma Orkuveitu Reykjavíkur að málinu er því á skjön við þá stefnu. Baldur Guðlaugsson, formaður Einkavæðingarnefndar segir að menn hafi þá haft í huga semkeppnisforsendur og þá hugmynd að það væri á skjön við einkavæðingarhugmyndina að einn opinber aðili væri að selja öðrum.

Björgvin G Sigurðsson, viðskiptaráðherra og starfandi iðnaðaráðherra telur að þetta kapphlaup varpi ljósi á ágalla málsins og hversu langt í land menn eigi með að marka sér heistæða pólitíska stefnu í enkavæðingu orkufyrirtækja Það er of bratt farið, segir hann og bendir á að meðal annars þurfi að skoða lagalega hlið mála t.d. í ljósi vatnalaga.

Geysir Green telur að samningur hafi verið komin á við Grindavík um kaup á 10% hlut þeirra á föstudag en Grindavík samdi um sölu á sínum hlut til Orkuveitu Reykjavíkur í gær. Í bréfi til Einkavæðingarnefndar í dag tilkynnti Geysir Green að félagið hefði falið lögmönnum að kanna réttarstöðu félagsins á þessu leyti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×