Innlent

Nýir erfðaþættir fundnir sem auka líkur á blöðruhálskirtilskrabbameini og gáttatifi

Íslensk erfðagreining hefur uppgötvað erfðaþætti sem auka líkur á að fólk fái blöðruhálskirtilskrabbamein og draga á sama tíma úr líkum á áunninni sykursýki. Þá hafa vísindamenn hjá fyrirtækinu einnig fundið erfðaþætti sem valda gáttatifi, algengustu orsök hjartsláttaróreglu.



Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar birtu í dag niðurstöður rannsóknar sem leiðir í ljós uppgötvun á tveimur nýjum algengum erfðaþáttum sem annars vegar auka áhættuna á blöðruhálskirtilskrabbameini og hins vegar dregur úr áhættu áunninnar sykursýki. Erfðaefni 3500 sjúklinga og rúmlega 14000 heilbrigðra einstaklinga var rannsakað meðal annars frá Íslandi, Spáni, Hollandi og Bandaríkjunum.



ÍSlensk erfðagreining hefur nú fundið fjóra erfðaþætti sem tengjast blöðruhálskirtilskrabbameini. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að blöðruhálskirtilskrabbameinssjúklingar fái síður áunna sykursýki. Að meðaltali greinast tæplega tvö hundruð tilfelli blöðruhálskirtilskrabbameins á Íslandi og er það eitt algengasta krabbamein hjá karlmönnum.

Þá hafa vísindamenn Íslenskrar erðfagreiningar fundið erfðaþætti sem auka hættuna á gáttatifi sem er ein algengasta orsök hjartsláttaróreglu og eykur líkurnar á heilablóðfalli. Kári segir að með svokölluðum greiningarprófum fyrir lækna sé hægt að greina þá sem séu líklegir að fá gáttatif og gefa þeim fyrirbyggjandi lyf. Slíkt próf kemur á markað á morgun. Niðurstöður rannsóknarinnar birtist í netútgáfu vísindatímaritsins Nature Genetics í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×