Innlent

Lögregla í þyrlu grípur fjölda ökumanna fyrir hraðakstur

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

 

Lögreglumenn um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar tóku tugi ökumanna fyrir of hraðan akstur í dag. Sumir voru langt fyrir ofan hámarkshraða með tengivagna og fellihýsi í eftirdragi.

 

Óhætt er að fullyrða að með þessari tækni nái lögreglan að margfalda afköst sín. Lögreglumaður flaug með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reykjavík yfir í Borgarfjörð á liðlega 15 mínútum og mældi hraða bifreiða úr lofti yfir Hafnarfjalli. Leifur Halldórsson, rannsóknarlögreglumaður umferðardeildar, beindi þá hraðamæli að bílaumferð og naut aðstoðar lögreglumanns á jörðu niðri við að stöðva þá ökumenn sem gerðust brotlegir við lög.

 

Með því að beita þyrlu Landhelgisgæslunnar við hraðamælingar með þessum hætti nær lögreglan yfir afar stórt svæði og fer fljótt yfir segir Jónína Sigurðardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn, en hún fullyrðir að þessi aðferð skili miklum árangri og hafi auk þess forvarnarlegt gildi.

 

Norðar í Borgarfirði settist þyrlan nærri vegarkanti og lögreglumaður fór fótgangandi ásamt Viggó M. Sigurðssyni stýrimanni hjá Landhelgisgæslunni og beindu þeir hraðamælitækinu að þungri umferð á suðurleið. Á örskömmum tíma mældust þrjár bifreiðir á yfir 110 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

 

Tvær bifreiðir af þessum þremur voru með tengivagna, önnur með fellihýsi og hin með hestvagn. Brotin eru því mun alvarlegri fyrir bragðið.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×