Innlent

Íbúum í Smáranum mun fjölga um helming

Íbúar í Smáranum í Kópavogi eru afar ósáttir við þétta byggð og háhýsi á svæði sem nú er merkt grænt á aðalskipulagi. Íbúum mun fjölga um tæplega helming á svæðinu. Á fundi í Smáraskóla var tillaga að nýju deiliskipulagi kynnt. Í því er gert ráð fyrir byggingu tveggja átta hæða turna í stað bensínstöðvar við Arnarsmára.

Á Nónhæð þar sem áður var gert ráð fyrir kirkju Baháa og útivistarsvæði er nú fyrirhuguð þétt byggð með háhýsum upp á tólf og fjórtán hæðir. Núverandi íbúar á svæðinu eru afar ósáttir við áformin. Auk þess að missa grænt svæði, muni tala íbúafjölda næstum tvöfaldast. Eitt áhyggjuefni íbúa er ágangur aukinnar umferðar og afleiðingar hennar. Íbúarnir segja engar tillögur hafa komið frá bænum um hvernig leysa eigi hávaðavandamál og mengun vegna hennar.

Einar Kristján Jónsson formaður skipulagsráðs Kópavogs segir að tillit verði tekið til sjónarmiða íbúanna varðandi fyrirhugaða byggð. Hann segir græn svæði mikilvæg í bænum en þó verði að taka tillit til að umrætt svæði sé nýr miðpunktur höfuðborgarsvæðisins.Hann neitar ásökunum um að verktakar skipuleggi byggð í Kópavogi en ekki bærinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×