Innlent

Bæjarráð vill nýta fyrirliggjandi næturferðir fyrir Shellmót og goslokahátíð

Næturferðir verða farnar fyrir Shellmót og goslokahátíð.
Næturferðir verða farnar fyrir Shellmót og goslokahátíð. MYND/GVA

Á bæjarráðsfundi í Vestmannaeyjum í dag var fjallað um samgöngur á sjó en Elliði Vignisson bæjarstjóri hefur undanfarið gagnrýnt seinagang yfirvalda við að koma á næturferðum með ferjunni Herjólfi.Í ályktun bæjarráðs er lýst áhyggjum af því að enn hefur ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um að fjölga áætlunarferðum Herjólfs um rúmlega 20 í sumar ekki komið til framkvæmda.

„Vestmannaeyingar eru orðnir langþreyttir á ástandinu og mikilvægt að tafarlaust verði gripið til aðgerða," segir í ályktuninni. „Vestmannaeyjabær hefur lengi unnið að undirbúningi þessara næturferða og lagt áherslu á að kortleggja helstu flöskuhálsa. Þeirri vinnu lukum við fyrir dágóðum tíma og óskuðum þá eftir 20 ferðum og tiltókum dagsetningar enda mikilvægt að geta auglýst þessa þjónustu. Því vill bæjaráð ítreka óskir sínar um að þær 20 ferðir sem samgönguyfirvöld höfðu ákveðið að farnar yrðu í sumar verði tafarlaust settar inn í áætlun."

Bæjaryfirvöld segja þann drátt sem orðið hafi á framkvæmdinni eflaust eiga sér sínar skýringar en engu að síður sé það algerlega óásættanlegt og frekleg framkoma við Eyjamenn og gesti þeirra að mál þetta sé enn ófrágengið nú þegar hámarksálag er á Herjólfi. „Framundan eru ferðahelgar eins og Shellmót, goslokahátíð og þjóðhátíð og heimamenn búa við það flestar helgar að komast ekki til og frá bæjarfélaginu," segir í ályktuninni.

„Til þess að vinna okkur tíma og bregðast við þessum nærtækasta vanda hefur bæjarráð nú gripið til þess ráðs að óska eftir því að Herjólfur sigli þær 5 næturferðir sem kveðið er á um í gildandi samningum í kringum Shellmót og goslokahátíð. Sú ákvörðun hefur því verið tekin að nú fyrir Shellmót verða næturferðir farnar í dag, miðvikudag 27. júní, á fimmtudag 28. júní og svo aftur á sunnudag 1. júlí. Í kringum goslokahátíð hefur tveimur næturferðum verið bætt við, á fimmtudeginum 5. júlí og sunnudeginum 8. júlí." Bæjarráð segir að þar með sé núverandi svigrúm Vestmannaeyjabæjar til að biðja um næturferðir búið. „Þetta var gert í þeirri trú að þessar tvær vikur sem við brúum með þessu verði notaðar til að efna gefin loforð um 20 næturferðir."

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmanneyjum, bendir á að einungis séu laus pláss fyrir örfáa bíla með næturferðinni sem fara á í kvöld og nánast sé orðið upppantað í næturferðina á sunnudag. „Hafa þarf hugfast að þessar ferðir voru fyrst auglýstar í gær og þetta sýnir betur en margt hversu mikil þörfin fyrir þessar ferðir er," segir bæjarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×