Innlent

Lík í matargeymslum

Heilbrigðiseftirlit borgarinnar hefur fengið kvartanir yfir því að lík séu geymd í matarkælum flutningafyrirtækis á meðan beðið er flutninga. Ekki verður séð að slík líkgeymsla innan um matvæli stangist á við reglugerðir eða lög.

Samkæmt heimildarmanni fréttastofu hafa að minnsta kosti nokkur tilvik verið síðustu mánuði um að lík séu geymd í matarkælum Landflutninga. Hann sendi ábendingu til umhverfissviðs borgarinnar sem brást við og kannaði málið. Örn Sigurðsson, sviðstjóri hjá Umhverfissviði staðfestir að þessi kvörtun hafi komið þar inná borð og samband hafi verið haft við Landflutninga vegna málsins. Örn segir að starfsmenn Landflutninga hafi þverneitað því að lík væru geymd í kæligeymslum fyrirækisins og hafi orð þeirra verið tekin trúanleg. Ekki hafi verið talin ástæða til að skoða málið frekar en í ljósi frétta um að útfararþjónustur hafi sótt lík í slíkar geymslur sé full ástæða til að skoða málið frekar.



Örn segir að hann sjái ekki í fljótu bragði að bann liggi við þessu þó að honum þyki það ekki sérstaklega hugnanlegt. Almennt gildir sú regla um matvælafyrirtæki að þeir eigi að forðast að blanda öðrum þáttum í reksturinn.

Flutningar á líkum með flutningabílum hafa aukist síðari ár samkvæmt upplýsingum sem fréttastofa fékk hjá útfararstofum. Starfsmenn þar staðfesta við fréttastofu að þeir hafi sótt lík í kæligeymslur flutningafyrirtækja. Ekkert bannar flutning á líkum með annari fragt á flutnignabílum en áður fyrr var í gildi bann við slikum flutningum milli landshluta nema líkin væru í zink kistum.

Fréttastofa náði ekki í nokkurn yfirmann Landflutninga þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×