Innlent

Íslendingur fyrsti erlendi nemandinn í CSI skóla

Íslenskur lögreglumaður, Jóhann Eyvindsson er nú að læra réttarrannsóknir eins og Íslendingum eru að góðu kunnar úr sjónvarpsþáttunum CSI. Jóhann er fyrsti útlendingurinn sem fær inngöngu í skólann en það er háskólinn í Tennessee sem stendur að náminu.

Það voru þó ekki sjónvarpsþættirnir vinsælu sem drógu Jóhann vestur um haf til náms, heldur heimildaþættir um sviðað efni sem sýndir voru á Discovery sjónvarpsstöðinni fyrir nokkrum árum. „Ég horfði á hvern einasta þátt," segir Jóhann í samtali við þarlent staðarblað, en vera hans í náminu hefur vakið töluverða athygli enda í fyrsta sinn sem útlendingur kemst í skólann eins og áður sagði. Hann segist hafa sótt um í skólanum skömmu síðar þrátt fyrir að gera sér litlar vonir um inngöngu.

Námið stendur yfir í 10 vikur og í vikunni sem leið var Jóhann að læra að taka fingraför. Í viðtalinu kemur fram að Jóhann hafi sérstaklega gaman af því að taka fingraför innan úr hönskum.

Samkæmt viðtalinu hefur Jóhann verið í Bandaríkjunum í tvö ár. Hann lauk B.A prófi frá háskólanum í Indiana með láði nú nýlega. Hann hefur starfað sem lögreglumaður í Reykjavík og Kópavogi frá árinu 2002.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×