Innlent

Fær bætur vegna flutnings í starfi

MYND/E.Ól

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða hjúkrunarfræðingi hálfa milljón króna í bætur vegna tilfærslu í starfi innan Landspítalans sem var talin íþyngjandi. Hins vegar hafnaði dómurinn kröfu hjúkrunarfræðingsins um að tilfærslan yrði dæmd ógild.

Konan starfaði á geðdeild Landspítalans við Hringbraut og sakaði samstarfsmaður hennar hana um kynferðislega áreitni eftir vinnustaðateiti. Var það til þess að hún var flutt í starfi yfir á Klepp. Við það sætti hún sig ekki og fór með málið fyrir dómstóla.

Hjúkrunarfræðingurinn mótmælti því að hún hefði áreitt starfsfélaga sinn og sagði ákvörðun yfirmanna sinna bera öll merki refsingar. Þá hélt hún því fram að flutningurinn hefði haft slæm áhrif á hana og leitt til þess að hún væri ekki vinnufær. Þá hefði mál þetta komið illa við hana fjárhagslega.

Dómurinn féllst ekki á kröfu hennar um að ógilda flutninginn þar sem ekki var talið að hún hefði lögvarða hagsmuni af því að hafa uppi sérstaka ógildingarkröfu, en henni hefði ekki verið sagt upp.

Hins vegar komst dómurinn að því að tilfærslan hefði ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum og að yfirmenn deildarinnar hefðu allt eins geta flutt hinn starfsmanninn en hann hefði verið tilbúinn til þess.

Þá kemst dómurinn einnig að því að tilfærslan hafi verið meira íþyngjandi fyrir hjúrkunarfræðinginn en efni stóðu til. Hún hafi verið brot gegn æru og persónu konunnar og til þess fallin að gefa alvarlegum ásökunum starfsfélaga hennar byr undir báða vængi og valda konunni miklum álitshnekki og andlegri vanlíðan. Voru henni því dæmdar 500 þúsund krónur í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×