Innlent

Tvö stór mál enn ófrágengin á milli flokkanna

Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar halda áfram eftir hádegi. Viðræður um málefnasamning eru langt komnar og segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, að þess verði freistað í dag að leiða það til lykta sem eftir er.

Forystumenn flokkanna funduðu á Þingvöllum til klukkan ellefu í gærkvöldi og komust þeir langt með málefnasamning. Samkvæmt heimildum Stöðvar 2 eru þó tvö stór mál enn ófrágengin í viðræðum flokkanna en ekki fékkst uppgefið hvaða mál það eru.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir mætti á skrifstofu Samfylkingarinnar í morgun en stefnt er að því að viðræðum flokkanna verði fram haldið eftir hádegi. Eftir því sem næst verður komið er ekki byrjað að ræða við einstaka þingmenn um ráðherraskipan.

Þá er ekki búið að boða fundi þingflokka né flokksráð Sjálfstæðisflokks og flokksstjórn Samfylkingarinnar sem eru þær stofnanir flokkanna sem þurfa að samþykkja stjórnarmyndun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×